14.12.2008 | 16:15
Smáfólk og stóra fólkið.
Komið þið sæl öll, sem þennan akur yrkið. Rétt um þessa mund er ég að átta mig á þessum tækni-akri sem tölvan er, og vettvangur hennar. Hefi því ákveðið að setja þar fram skoðun mína á ákveðnum ramma stjórnsýslunnar á Íslandi um þessar mundir. Byrja á að rifja upp staðreynd sem ég fyrir örfáum árum var vitni að, þegar nokkrar konur íslenskar tóku sig saman eina helgina, til að selja hannyrðir sínar undir yfirbyggðu porti verslunarkeðju.
Þarna var vissulega margt fagurt að sjá sem framleiðendur höfðu lagt sálu sína alla í, og samkvæmt limaburði, sumar mikið meira. Þarna urðu þær hamingjan uppmáluð ef einhverjum datt í hug að fjárfesta svo sem eins og eitt par af lopavettlingum. En þeir aurar gátu hugsanlega gefið viðkomandi prjónakonu, svona hálf verkamannalaun, enga þeirra sá ég að kveldi reiða afraksturinn á burt í pokum um herðar sér, þó allflestar glaðar í bragði, því allar eiga þessar það sammerkt að vera sælla að gefa en þiggja.
En gæti verið að þarna hafi leynst úlfur í einhverri sauðagærunni.
Snemma hinn fyrra dag helgarinnar, sáust tveir menn arka um svæðið, prúðbúnir, kurteisir, og virtust hafa svolítinn áhuga fyrir flestu því sem þarna var á söluborðum, keyptu jafnvel einn og einn ódýran smáhlut og spurðust fyrir með stakri nærgætni, hversu langan tíma tæki að gera svona hlut, hvað kostaði hráefnið, nei bara svona af forvitni, ekki það að þeir ætluðu sér að fara útí þetta, nei þetta var bara svo áhugavert, og viti menn áhugi þeirra varði alla helgina, og hreint ótrúlegt hve naskir þeir voru að finna á sér ef viðskipti áttu sér stað við eitthvert borðið, að vera þá staddir einmitt þar. Engin þessara kvenna hafði reyndar fæðst deginum áður, höfðu afar fljótlega áttað sig á tilurð þessa ágætu manna, þar var einfaldlega samankomið hið íslenska skattaeftirlit í hnotskurn.
Ímyndum okkur nú að þú lesandi góður, hafir atvinnu þinnar vegna( ríkisstarfsmaður ) lent í því hlutverki að vera einmitt annar þessara ágætu manna sem þeir eflaust voru, og ekki bara það heldur kemur til sú önnur tilviljun, að systir þín móðir og amma, höfðu einmitt þessa helgina ákveðið að slá saman í sýningarbás,ef þær næðu hugsanlega að selja nóg til að borga fyrir aðstöðuna, þá yrði nú aldeilis gaman, nú ef ekki þá yrði byrðin léttari fyrir þær þrjár að bera.
Og einmitt vegna tilkomu þinnar á svæðið hefði auðveldlega getað fæðst ein tilviljun enn, sem sagt sú að þegar viðskipti virtust í aðsigi við ákveðið borð, var eftirlitið upptekið við annað.
Hvað um það, ykkar hlutverk var jú að gæta hagsmuna heillar þjóðar, því skattur af hannyrðum mæðra okkar eru að jöfnu skattskyldar, sem önnur íslensk framleiðsla, og hvað veit skattmann nema einhverri móðurinni handverkskonunni kynni að detta í hug að stinga bara svona smá undan, enda ekki neinir smáfjármunir hér á ferð.
Ekki kæmi mér á óvart þó gæsla umrædd hafi kostað samfélagið þrefalda söluveltu hannyrðakvenna sem þarna áttu hlut að.
En hvað um það, kannski átti einhver þeirra son, sem sá að þetta var lélegur bissnes, og hét sjálfum sér því að, gera betur, kannski lærði sá hinn sami einmitt þarna, þær grundvallarreglur sem gilda fyrir ábatasaman bissnes, sem sagt að eiga vini á réttum stöðum, nýta þá þegar við á,og gauka einhverju að þeim þegar það á við.
Þjóð vor upplifir nú hörmungar svo gríðarlegar að engan veginn er skiljanlegt hinum almenna borgara hvað þá hjartahlýrri prjónakonu. Almúginn hefur nær gleymt því að nokkrir menn rændu þjóðina öllum okkar sjáfar auðlindum, og deildu millum sín, við höfum næstum fyrirgefið þeim, þeim var þetta þó enganveginn nóg og fengu því bankana, ekki alveg gefins var það? nei bara fyrir lítið. Þar með höfðu þeir nú heldur betur hráefnið sem til alvöru útrásar þurfti, bæði fley og föruneyti , auk mikils byrs, sem stafaði af gríðargóðri afkomu, hinna erlendu fjárfestinga, sem íslendingum af ævafornri elju harðneskju, og nútíma viðskiptaaðferðum , virtist nú svo auðvelt að kaupa. Og sýna umheiminum hversu einfalt allt þetta er, bara með því að selja hvorir öðrum hlutabréf i fyrirtækjum hvors annars, tók bara svona góða kvöldstund að fiffa til 10 - 30 miljarða samninga.
Auðvita var ekki sama við hvaða borð FMI. stóð einmitt þá. En þeir góðu drengir eru þegar hér er komið sögu fyrir löngu búnir að átta sig hvar þeir skuli standa til að valda ekki óþarfa usla.
Því hefi ég nú rakið helgar sögu hannyrða kvenna, að ég tel svo gríðarlega þjófnaði hafa átt sér stað undanfarin ár gegnum banka, lífeyrissjóði og aðrar peningastofnanir íslenskar, að þjóðin eigi vart fyrir útsæði lengur. Ég sem hélt fyrir skömmu að við værum ein ríkasta þjóð heims.
Því er ég svo að þessum skrifum að mér einfaldlega ofbýður. Nú heyrum við af hvítflibbunum reiða um bak sér gull og silfur landsmanna,út um bakdyr bankanna, aðrir kunna betur að fela slóð sína, og fjarlægja þýfið með hjálp tölvunar. Og kannski fyrir tilviljun eina, ert þú lesandi góður einmitt sá eini sem þarf að líta undan rétt á meðan, ríkisstjórn Íslands sér þeim fyrir nægum tíma með aðgerðarleysi og dugleysi, kannski vegna þess að innan hennar er fyrir tilviljun einmitt bæði ég og þú, og hvorugum okkar hentar að trufla þá ágætu menn sem komið hafa þjóðinni til gjaldþrota, þeir þurfa líka smá tíma til að skoða sjálfa sig aðeins til bakalitið og munu þá efalaust skila okkur smáfólkinu haldgóðum skýringum, kaupa sín eigin gjaldþrota fyrirtæki á spottprís og hefja sigurgönguna aftur, ég spyr bara MEÐ HVERJU EIGUM VIÐ AÐ BORGA, atvinnulaus heimilislaus, svipt sjálfstrausti og þjóðarstolti.
Hvernig væri nú að fá Abramov hinn Rússneska auðkýfing til að liðsinna okkar mönnum þegar rykið lægir og þeir vilja til átthaganna aftur leita. þeir verða þá væntanlega jafnt og hann, saklausir menn.
Það er nefnilega svo á íslandi að það er ekki beinlínis bannað að stela, ef þú ert bara nógu stórtækur í því, en varast skulum við öll þá freistingu að stinga undan, ekki svo mikið sem prjónavettlingspari. Því einmitt fyrir þá eru fangelsi vor en ekki útrásarvíkinga. Þeir hafa hingað til notið ríkisverndar.
Athugasemdir
Áfram Maggnús :)
IGG , 14.12.2008 kl. 16:42
Já Maggnús, það er kominn tími til þess að þú látir í þér heyra
Viking Villa, 15.12.2008 kl. 00:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.